Bólið logo Mosinn Logo

Vinátta - Virðing - Gleði

Valfög

Eftirfarandi valfög eru í boði:

Kjaftað um kynlíf

"Kjaftað um kynlíf" er valáfangi fyrir unglinga í 9. og 10. bekk sem þeir geta valið sér í samstarfi við bæði Lágafellsskóla og Varmárskóla. Í þessum áfanga erum við að nota bókina "Kjaftað um kynlíf" eftir kynfræðinginn Siggu Dögg. Bókin er gefin út sem handbók fyrir fullorðna til þess að ræða um kynlíf við börn og unglinga. Bókinni er skipt upp eftir aldri og förum við vel yfir allt sem kemur fram á unglingastiginu ásamt því að fara aðeins í framhaldsskólastigið.

Í tímunum eiga að skapast umræður þar sem að unglingarnir ræða sín á milli um viðfangsefnið. Svo geta þeir komið með spurningar á meðan að umræðurnar eru í gangi eða eftir tíma og þá komið fram undir nafnleynd og leiðbeinandi tímans sér þá um að lesa þær spurningar upp og annað hvort svara eða fá svör frá samnemendum.

Þessi handbók hentar okkur mjög vel sem verkfæri í þessum áfanga og hefur þessi valáfangi skilað mikilli þekkingu til unglinganna. Meðal annars er farið í:

 • Hver er ég? Líkamsímynd og þróun sjálfsmyndar
 • Tilfinningar, ást, skot, hrifning og ástarsorg
 • Kyndbundin smáskilaboð og önnur rafræn samskipti
 • Kynhneigð – LBGTQI, trans, kynleiðréttingar og fordómar
 • Líkamshárvöxtur, háreyðingar, kynfæri og rassinn
 • Píka og typpi
 • Kynlíf, sjálfsfróun og fyrsta skiptið
 • Óljós mörk, klám og kynlíf í fjölmiðlum
 • Getnaðar- og kynsjúkdómavarnir

Mikilvægt er fyrir unglinga að hafa öruggt rými og aðstöðu til þess að læra ásamt því að spyrja og fræðast meira um þessi mál. Þar að leiðandi bjóðum við upp á þá aðstöðu í Bólinu með frábæru starfsfólki.


Hægt er að hafa samband við andreaosk[hja]mos.is  til að fá nánari upplýsingar.


Stattu á þínu

Viltu geta staðið með sjálfri þér? Þú átt rétt á þínum skoðunum óháð skoðunum annarra. Komdu og æfðu þig hjá okkur!

Stattu á þínu er valáfangi sem er settur upp sem námskeið fyrir stelpur. Námskeiðið mun gefa öllum kost á að tjá sig en því er náð fram með mismunandi aðferðum að fyrirmynd Bellanet sem er sænskt forvarnarverkefni á vegum Wocad.

Á námskeiðinu er farið í gegnum mismunandi viðfangsefni eins og:

 • Vináttu
 • Sjálfsmynd
 • Kynlíf
 • Forvarnir o.fl.

 Stelpurnar fá tækifæri til þess að mynda sér skoðun á ýmsum málum ásamt því að fá þjálfun í að rökstyðja hvers vegna þær eru þeirrar skoðunar. Þannig geta þær verið búnar að fá æfingu í að mynda sér skoðun á ýmsu og færa rök fyrir því. Með þessu námskeiði er því búið að undirbúa þær fyrir raunverulegar aðstæður sem geta komið upp. Mikið er lagt upp úr því að bera skuli virðingu fyrir skoðunum annarra og vináttu.


Mótorkrossklúbbur

Mótorhjólaklúbbur Bólsins er klúbbur fyrir þá sem eiga mótorhjól eða hafa brennandi áhuga á mótorhjólum. Á veturna þegar ekki er hjólafært þá hittist klúbburinn einu sinni í viku á miðvikudögum í Lágóbóli og horfir á myndir og myndbönd tengd mótorkrossi. Þegar það er hjólafært þá fer klúbburinn saman einu sinni í viku að hjóla, annað hvort í braut eða á viðurkenndum enduro slóðum. Ef þú átt mótorhjól eða hefur áhuga á mótorhjólum, endilega skráðu þig í klúbbinn og taktu þátt í skemmtilegu starfi okkar í skemmtilegum félagsskap!

Þessi klúbbur  er metinn sem valfag í skólunum.

Félagsfærni námskeið

Félagsfærni námskeiðin okkar eru ekki valfag heldur eru þau sérsmíðuð eftir þörfum hverju sinni.   Ef upp koma einhver mál innan skólanna þá höfum við tekið hópa eða árganga til okkar í ýmiss konar fræðslu og félagsfærniþjálfun. 

Sem dæmi má nefna kom 10. bekkur í Varmárskóla til okkar í "Sjúk Ást" fræðslu. Það er fræðslupakki sem Stígamót útbjó. Þar er farið yfir mörkin okkar þ.e. hvenær  samskipti fara  yfir línuna og verða að áreiti eða hvers kyns ofbeldi.

Einnig erum við að vinna með 7. bekk þar sem lögð er áhersla á að kenna þeim að standa með sjálfum  sér og bera virðingu fyrir hvert öðru.  Ýtt er undir gagnrýna hugsun og þjálfun í að útskýra mál sitt. Efnið er kennt í gegnum leiki og byggist á sænska forvarnarverkefninu Bellanet.  

 

Leiklistarvalið

Leiklistarklúbburinn fer í gang sem val þetta árið og mun þetta verða rosalega flott og gaman hjá okkur. Við munum setja upp leikrit sem sett verður á fjalirnar í vor. Tónlistarhópar Kjallarans munu aðstoða okkur með tónlistina og undirspil fyrir leikritið og svo munum unglingarnir sem eru með Stíl sem val aðstoða okkur með búininga. Leiklistarklúbbur Bólsins er fyrir þá sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og kynnast flottum hóp af fólki.

Kennt verður einu sinni í viku í 2 tíma í senn. 

Aðalkennarar í leiklistinni Grímur Orri Sölvason og Melkorka Sjöfn Magnúsdóttir en fjölmargir aðrir koma að undirbúningi sýningar.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira